Tenerifeferð starfsmanna

Starfsmenn Rafeyrar, makar þeirra og áhangendur héldu að morgni 14. september út í heim. Flogið var beint með vél Icelandair frá Akureyri til Tenerife og voru menn sammála um að þetta væri frekar þægilegt.

Dvalið var í vikutíma og margt brallað og bros á vör alltíð. Farið var í vatnsleikjagarð, Go-kart, fjallaferð, köfun, kafbátaferð, mótorhjólaferð, verslunarferðir, ökuferðir svo fátt eitt sé talið. Margir kostir voru í boði þegar kom að því að nærast en ætla má að Teppanayki hafi haft vinninginn þegar þrír hópar innan hópsins voru þar á sama tíma án þess að hafa haft nokkurt samráð sín á milli. Svo fór einn hópurinn þangað aftur.

Mismikla áherslu lögðu menn á brúnkuvinnu en flestir komu þó frísklegri heim en þegar þeir fóru utan. Þessi ferð, eins og fyrri Rafeyrarferðir, treysti mjög böndin á milli starfsmanna og rennir þannig styrkari stoðum undir fyrirtækið. Mórallinn á Rafeyri er rómaður og það er áreiðanlegt að ekki dalaði hann við það að verja viku saman í sólinni.