Gott orðspor - góð verkefnastaða

Í glímunni við að afla verkefna hefur tæknideild Rafeyrar staðið sína plikt undanfarið sem endranær. Fyrir tæplega 50 manna fyrirtæki er mikið í húfi að góð verk fáist og að vandað sé í hvívetna til þeirra vinnu sem lagt er í við tilboðsgerð. Mikil reynsla og gott kerfi Rafeyrar hefur sannað gildi sitt með vönduðum tilboðum og iðulega hefur tæknideildin fengið lof í eyra vegna framúrskarandi skila á tilboðum.
Verkefnastaða Rafeyrar er traust og framundan góð verk í hendi. ABB hefur tilkynnt að gengið verði til samninga við Rafeyri varðandi spennavirki að Klafastöðum í Hvalfirði og er þar um 5000 vinnustunda verk að ræða. Þá er framundan vinna við uppbyggingu frystigeymslu fyrir HB Granda á Grandagarði.  Það er ánægjuefni að nú sé örstutt í að Ósafl taki til við að gera gat á Vaðlaheiði og mun Rafeyri sjá um vinnurafmagnið á verktíma. Þá verða vinnubúðir Rafeyrar og GV grafna settar upp á vettvangi og nýttar sem skrifstofuaðstaða.
Það er vor í lofti og klakinn sem þakti tún og móa hopar hratt. Eitthvað segir okkur að sama eigi við varðandi uppbyggingu og verkefni framundan. Virkjanaframkvæmdir á háhitasvæðum Þingeyjarsýslna, framkvæmdir á og í tengslum við Bakka ásamt hinum fjölmörgu kostum á norðurslóðum eru sólargeislar sem örva gróandann og nú er það bara okkar að skapa skjól og vökva nýgræðinginn.