Rafeyri - Framúrskarandi fyrirtæki 2012

Það er þrotlaus vinna að gera góða hluti en svo uppsker hver sem sáir. Það er alltaf gott að fá staðfestingu á góðu verki og því fögnum við Rafeyrarmenn viðurkenningu Creditinfo þar sem Rafeyri er þriðja árið í röð í hópi framúrskarandi fyrirtækja samkvæmt úttekt greiningarfyrirtækisins.

Enn fjölgar félögum sem komast inn á þennan lista og er það fagnaðarefni. Allar slíkar viðurkenningar eru hvatning til að skila góðu starfi og stuðlar það þannig að heilbrigðari viðskiptum og auknu trausti milli viðskiptaaðila.

Kröfur nútímans eru sífellt að verða meiri og meiri varðandi góða starfshætti, aukið öryggi og trygg gæði vöru og þjónustu. Rafeyri fer ekki varhluta af þessu og allnokkur vinna fer í að bæta og breyta. Það er von okkar að allt þetta leiði til þess að Rafeyri haldi áfram að vera meðal framúrskarandi fyrirtækja, eigendum, starfsmönnum og samfélaginu til heilla.