Rafeyrarmenn vinna víða á válegum tímum

Örn og Björn, þ.e. Elvar Örn og Björn Fannar í Petropavlosk.
Örn og Björn, þ.e. Elvar Örn og Björn Fannar í Petropavlosk.

Tveir starfsmenn fóru til Kanada til að vinna að uppstarti uppsjávarverksmiðju á Nýfundnalandi. Þurftu þeir þar til sóttkví þeirra lauk að vinna á nóttunni og um helgar þegar starfsmenn fyrirtækisins voru ekki á vettvangi. Var það að kröfu verkalýðsfélags til að draga úr hættu á smiti milli aðkomumanna og heimamanna.

Fimm starfsmenn eru nú við störf hjá rússneska fyrirtækinu Lenin við uppbyggingu uppsjávarverksmiðju í Petropavlosk á Kamsjatka-skaga austast í Rússlandi. Það er meira en að segja það að fá leyfi til að koma inn í Rússland og þurfti sérstakt boðsbréf sem veitti þessum sérfræðingum heimild um inngöngu í landið. Einnig þurftu þeir að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr skimun og máttu ekki vera liðnir meira en þrír dagar frá rannsókninni.
Verkið hefur gengið vonum framar og er von á þeim heim innan fárra daga. Síðan þarf einn eða tveir að fara frá Rafeyri í uppstart á verksmiðjunni. Aðbúnaður er hinn besti og hefur mannskapnum liðið vel í borginni Petropavlosk sem er ein af þeim stærstu í heimi sem ekki tengjast meginlandsvegakerfi.

Bæði þessi verkefni eru í samvinnu við Kælismiðjuna Frost og hefur samstarf fyrirtækjanna verið með miklum ágætum. Fleiri verkefni eru í deiglunni þó að vissulega hafi eitthvað hægst á framkvæmdum hér og þar í heiminum.