Litlu jól Rafeyrar í óvissu

Litlu jól Rafeyrar í óvissu
Litlu jól Rafeyrar í óvissu

Litlu jól Rafeyrar fóru fram laugardaginn 30. nóvember 2013 og mættu tæplega 70 manns til leiks. 

Farið var út í óvissuna út með Eyjafirði að vestanverðu. Búið var að skipta hópnum upp í fjögur lið og fyrir þeim lágu ýmsar þrautir til að leysa. Í fyrstu var haldið á Hjalteyri þar sem Erlendur Bogason kafari leiddi liðið um salarkynni gömlu verksmiðjanna á staðnum. Sýndi hann myndband frá köfun við strýturnar í Eyjafirði og sagði frá þeim. Sjósund og heiti potturinn í flæðarmálinu bíða betri tíma.
Haldið var í norðurátt og næsti viðkomustaður var Hauganes. Spilað var rútubingó á leiðinni og var bláa liðið einstaklega lunkið í því. Elvar Reykjalín hjá Ektafiski tók á móti okkur að höfðingjasið og gladdi menn og konur með gamanmálum og kúnstum. Starfsmenn kepptu við eigendur Rafeyrar í leik sem má kalla Augabragð og höfðu betur. Rósa sýndi lipur handtök við flökun á vænum þorski og ljóst er að þar er enginn nýgræðingur á ferð. Kræsilegir réttir féllu í góðan jarðveg hjá mannskapnum og svo var keppt í Guinnesdrykkju, vinstri handar skrift, afturábak tali og kroppsogi.
Enn var haldið í norðurátt og Dalvíkin draumabláa sótt heim. Gústi og hans lið tók á móti okkur á veitingastaðnum Við höfnina og kneifuðu menn mjöð og smjöttuðu á kræsingum. Það gleymdist að hópþakka fyrir sig og viljum við hér með koma á framfæri hjartans þökkum fyrir trakteringarnar.
Enn var reynt með sér og nú var hnýtt pelastikk, bönd fléttuð og frönskusnillingar létu ljós sitt skína. Milli munnbita og gúlsopa glímdu menn við Rafeyrarkviss og vann Háborðið þá keppni. Anna Dóra og Sævar voru hvort fyrir sig með sínar pillur á starfsmenn og var Anna Dóra í þetta sinn með þær í bundnu máli og flutti hún stemmuna með undirleik Davíðs. Davíð flutti einnig gamanmál og stjórnaði fjöldasöng. Þá kom Andri Sigurjóns með skrýtlu og sannaði að hann er góður húmoristi. Síðast en ekki síst er rétt að nefna framlag þeirra Heimis og Jónasar sem tóku Sveitina milli sanda og Enska duddu-lagið og að sjálfsögðu með stæl.
74 manna rúta SBA kom svo liðinu á leiðarenda og stóð Rabbi bílstjóri sig með stakri prýði við stjórnvölinn.