Kveðja til Kris

Kveðja til Kris
Kveðja til Kris

Krzysztof Stanislaw Chwilkowski

fæddur 13. október 1956 - dáinn 12. júlí 2010

Blessuð sé minning góðs vinnufélaga og vinar.

Í janúar 2007 hóf Kris störf hjá Rafeyri og þó að hann væri nánast mállaus, eins og við Íslendingar orðum það þegar útlendingar kunna hvorki íslensku né ensku, þá var hann hvergi banginn.

Hann vann frá fyrsta degi af atorkusemi og metnaði, stundum leiddi kappið hann í ógöngur eins og eftirfarandi saga segir til um. Þegar hann var að vinna með Kela að lagningu svers strengs sagði Keli við hann að hann mætti ekki klippa strenginn, ekki klippa ítrekaði hann. „Já, ég skilja.“ Keli sneri sér að sínu verki augnablik og leit svo á Kris, stoltan af verkinu, enda búinn að klippa strenginn. Klipparinn tók ekki í mál að fara í kaffi á eftir þar sem hann var að bæta strenginn.

Kris var lífsglaður maður og brosið náði alla leið til augnanna og það sem meira er til hjarta okkar samstarfsmanna hans. Hann lagði sig í líma við að tileinka sér tungumál innfæddra og bar hann með sér skruddu þar sem hann skráði rithátt og þýðingar, þ.e. hann skrifaði sína eigin orðabók og var skotfljótur að finna stuðning við mál sitt í henni. Hins vegar verður að viðurkennast að lengi vel ríkti nokkur óvissa varðandi áreiðanleika þess þegar Kris svaraði „Já, ég skilja.“

„Gaman að kallinum.“, „Einstakur félagi, hann tók þátt í öllu með okkur.“ og „Skapgóður, þægilegur, aldrei í fýlu.“ eru meðal ummæla sem féllu um samferðarmann okkar til þriggja og hálfs árs.

Einn starfsmaður öðrum fremur var óþreytandi að styðja Kris í starfi og einnig þess utan. Sævar Örn Þorsteinsson gerði sér far um að læra pólsku og minntist hann Kris með eftirfarandi orðum sem hann sagði að hefði verið það síðasta sem Kris hefði kennt honum: „Padaj mi dwa kawalek chleba.“ Þetta mun útleggjast á íslensku svo: Réttu mér tvær brauðsneiðar.

Kris var afbragðsgóður rafvirki og gat glímt við allskonar verk. Hann taldi ekkert eftir sér að vinna það sem aðrir vildu komast hjá að glíma við, enda maðurinn gæddur miklu umburðarlyndi og langlundargeði til viðbótar við kímnina. Þegar falast var eftir að við nytum þess að fá pólsk jólalög á skemmtidagskrá litlu jólanna okkar Rafeyrarmanna þá skoraðist Kris ekki undan og flutti tvö lög með stæl, viðstöddum til sannrar gleði þó hann væri aðeins farinn að ryðga í textanum.

Kris hlaut ótímabæran dauðdaga aðeins 53 ára gamall og skilur eftir sig skarð í okkar raðir, skarð sem verður vandfyllt. Hann var fullur tilhlökkunar vegna fyrirhugaðrar ferðar til Tenerife og hans verður sárt saknað. Það er þó huggun harmi gegn að áreiðanlega verður hans skál drukkin þar, oftar en einu sinni ef Rafeyrarmenn standa undir væntingum.

Kæri vinur, farðu vel og farðu í friði. Hafðu hjartans þökk fyrir ánægjustundir hins alltof skamma samverutíma okkar. Þín verður minnst með bros á vör og þó að þú hafir oft verið hláturvaki þá var alltaf hlegið með þér en ekki að þér.

Starfsmenn Rafeyrar votta Lilu konu Kris, syni hans, systrum hans og fjölskyldum djúpa samúð sína.

 

Starfsmenn Rafeyrar.