Ég ætla að vera AFI RAFVIRKI

<em>Ég ætla að vera AFI RAFVIRKI</em>
Ég ætla að vera AFI RAFVIRKI

Upp er runninn öskudagur beljaði Heimir Mariobróðir í morgun enda streymdu söngfuglar í skringilegum og skondnum búningum á Rafeyri til að fá umbun fyrir. 

Erna Tom afabarn Hjartar Gíslasonar töflusmíðasérfræðings Rafeyrar sagði fyrir nokkrum vikum að hún ætlaði að verða Afi rafvirki á Öskudaginn og kvikaði hún hvergi af þeirri leið. Í dag mætti hún með mömmu sinni og svo sannarlega er hún alvöru rafvirki með fullgilt vinnustaðaskírteini um hálsinn, í vinnubuxum merktum sér, Rafeyrarbol og húfu og ýmis bráðnauðsynleg rafvirkjaverkfæri.

Athyglisverður þótti okkur einnig rappari sem kom í rauðabítíð ásamt systur sinni. Þegar ungu rafvirkjarnir sem voru í móttökunni gaukuðu að honum nammi í plastpoka afþakkaði hann en þess í stað fékk systir hans glaðninginn. Þegar hann gekk út um dyrnar sagði hann að við ættum að hugsa um framtíðina sem væri þeirra.

Við þökkum öllum fyrir komuna og vonum að þið fáið ekki of mikla magapínu út úr deginum.