Rafeyri tekur þátt í tilraunaverkefni með Skógræktinni

Atli Rafn (hátækniverkfræði B.Sc.) kennir Rakel og Brynjari á stjórnkerfi nýja gámsins.
Atli Rafn (hátækniverkfræði B.Sc.) kennir Rakel og Brynjari á stjórnkerfi nýja gámsins.

Nú á vordögum útbjó Rafeyri í samvinnu við Skógræktina sérstakan ræktunargám en markmiðið með smíðinni var að útbúa rými þar sem hægt er að stýra helstu umhverfisþáttum sem hafa áhrif á vöxt plantna s.s. ljósmagni, hita og rakastigi.

Gámurinn er 40 feta breyttur frystigámur staðsettur á Vöglum í Fnjóskadal. Í honum eru ræktunarborð sem hægt er að stjórna undirhita í og hafa þannig jákvæð áhrif á ræktunarefnið og rótarvöxt. Einnig er hægt að stjórna tímasetningum og tímalengd ljóslotu yfir ræktunarborðunum allt eftir þörfum plantna sem ræktaðar eru hverju sinni. Auðvelt er að tengja vatn í gáminn og koma fyrir einföldum áburðarblandara sem auðveldar ræktunina.

Við hjá Rafeyri sjáum fyrir okkur mikla möguleika fyrir stóra aðila í hótel- og veitingabransanum að geta í framtíðinni ræktað sitt eigið grænmeti eftir þörfum í gámi eins og þessum. Gámurinn gæti þá verið staðsettur steinsnar frá eldhúsinu og gæti þannig tryggt hámarks ferskleika, lágmarks matarsóun og ánægðari viðskiptavini.

Við óskum Skógræktinni innilega til hamingju með gáminn og munum fylgjast spennt með árangrinum af þessu skemmtilega tilraunaverkefni.