Góð verkefnastaða

Nóg að gera

Starfsmenn Rafeyrar sitja ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn því næg verkefni hafa verið og útlitið er gott.

Unnið hefur verið við raflagnir í Seiglubáta og hafa sérfræðingar að sunnan (SAS) rómað frágang okkar manna. Eiríkur Vignir Kristvinsson hefur stýrt því verki og þar er ekkert hangs eða handvömm liðið.

Öflug sveit frá fyrirtækinu er nú að standsetja húsnæði Rúmfatalagersins í nýbyggingunni á Glerártorgi og vinna þeir í uppmælingu. Er það nýjung hjá fyrirtækinu og lofar hún góðu þar sem afköst eru verulega góð og hífir það tímakaupið upp.

Það er farið að hilla undir að nýtt fangelsi á Akureyri verði tekið í gagnið og getum við verið hreyknir af okkar þætti í því. Björgvin Daði hefur leitt okkar þátt í því af röggsemi.

Hestamannafélagið Léttir nýtur krafta okkar í nýrri Reiðhöll. Verulegar vangaveltur hafa verið varðandi hvaða lýsing hæfir starfseminni og vonandi hefur tekist vel til.

Nýlega var ljóst að Rafeyri mun annast raflagnir í IV. áfanga Háskólans á Akureyri. Það var Tréverk á Dalvík sem hneppti hnossið sem aðalverktaki og áætlað er að hefjast handa með vorinu.