Rafgæði & jarðbindingar

Rafgæði

Þegar ólínulegt álag skapast í rafkerfum, t.d. með aukinni notkun hraðabreyta og dimma í ljósastýringum, geta alls kyns óútskýrðir kvillar komið upp í rafkerfum. Þessir kvillar geta verið að ýmsu tagi t.d. mikil hitamyndun, suð í tækjum og svo ótímabærar bilanir. Samstarfsaðili Rafeyrar, fyrirtækið Comsys í Svíðþjóð hefur á undanförnum árum náð góðum árangri í þróun og smíði rafsía (filtera) til að vinna bug á þessum kvillum. Með samstarfi Rafeyrar og Comsys hefur meðvitund og þekking innan veggja Rafeyrar um mikilvægi rafgæða aukist verulega. Augljóst er orðið að góð rafgæði geta skipt sköpum þegar kemur að rekstraröryggi fyrirtækja. Starfsmenn Rafeyrar hafa sótt námskeið erlendis til að bæta þekkingu sína á þessu sviði og heldur Rafeyri nú umboð Comsys á Íslandi. Hafir þú grunsemdir um að rafgæðin í þínu fyrirtæki séu ekki sem skyldi getur Rafeyri komið fyrir mæli í ákveðinn tíma og fylgst með rafkerfinu. Út frá niðurstöðunum geta tæknimenn Rafeyrar gefið ráð og sagt til um hvort einhverra aðgerða er þörf.

Comsys.se

Jarðbindingar

Góður frágangur á jarðbindingu og spennujöfnun sem tryggir að ekki myndast spennumunur á milli hluta hefur sannað mikilvægi sitt þegar litið er til gangöryggis og tæringar. Rafeyri hefur í samvinnu við Orkulausnir ehf. tekið jarðbindingar og spennujöfnun skrefinu lengra með sérstökum djúpskautum. Djúpskautið er tengt jarðbindi- og spennujöfnunarkerfum húsa með sverum koparvír sem enda oft í 100 m djúpri borholur utan við húsið. Með djúpskauti er tryggt að jarðsamband í húsinu verður eins gott og kostur er.

Áhrif raf- og segulsviðs á mannslíkamann eru óþekkt og margar sögur til um þau. Það er hinsvegar vel þekkt og viðurkennt að gott jarðsamband í fjárhúsum og fjósum bætir heilsu og líðan dýra. Þessa vitneskju hafa Rafeyri og Orkulausnir heimfært yfir á híbýli fólks með góðum árangri. Fyrir þá sem vilja vita hvort einhverjir draugar af völdum rafmagns leynast í híbýlum þeirra þá hefur Rafeyri á að skipa starfsmönnum sem geta mælt þessi svið og komið með ábendingar um úrbætur til að draga úr neikvæðum áhrifum þeirra.